Vorferðin 2025 - AFLÝST

Vorferðin 2025 - AFLÝST

VORFERÐINNI (HÚSAVÍK - ÞEISTAREYKIR - MÝVATN) HEFUR VERIÐ AFLÝST VEGNA LÍTILLAR ÞÁTTTÖKU

Við hittumst við Leirunesti kl. 9:45 þar sem við spjöllum saman og ræðum dagskrána.

Kl. 10:00 leggjum við stundvíslega af stað austur á bóginn með myndavélarnar á lofti og augun opin fyrir fallegum mótífum allan daginn.

Fyrsta stopp er Húsavík (um kl. 11:00) – heillandi sjávarþorp þar sem við ljósmyndum í Lystigarðinum sem er lítill en dásamlegur garður, kirkjuna sem er íkon bæjarins, höfnina og litríkan bæjarkjarnann því sjarmi bæjarins er um hann allan.

Gert er ráð fyrir um 1,5 tíma myndastoppi á Húsavík.

Þaðan (kl. 12:30) höldum við á jarðhitasvæðið á Þeistareykjum þar sem gufustrókar og litir jarðar skapa dularfullt og heillandi myndefni. Aksturinn tekur um 30 mín.

Við gerum ráð fyrir um 2 tíma myndastoppi á Þeistareykjum (til kl. 15:00) enda er svæðið heillandi og margbrotið.

Þegar við höfum fangað stemninguna þar liggur leiðin áfram í gegnum Mývatnssveit. Aksturinn þangað tekur um 20 mín. Við stoppum víða eftir hentugleikum til að mynda einstaka náttúru – hvort sem það eru hraunmyndanir, gróður, fuglalíf eða spegilslétt vatnið.

Um kl. 17:00 fáum við okkur kvöldmat á svæðinu og slökum aðeins á.

Verið er að athuga með mat fyrir hópinn (mögulega Hótel Sel) og gerum við ráð fyrir um 20 manns í byrjun, en við þurfum hinsvegar fljótlega að átta okkur á því hvort við verðum fleiri eða færri en 20.

Eftir matinn gefst frjáls tími þar sem hver og einn getur valið sér stað til að mynda í kvöldbirtunni eða tekið forskot á heimferðina. Dagurinn lofar óteljandi myndfærum augnablikum og góðum félagsskap.

Facebook-hópurinn okkar hentar ágætlega í samtalið um þessa ferð og ef einhver vill fá far, þá látið vita inni í hópnum. Endilega látið einnig vita ef þið ætlið að fara akandi og getið tekið farþega.

Munið líka að taka með ykkur nesti og nægan vökva. Og auðvitað hlý föt. Flugnanet gæti einnig komið að góðum notum í Mývatnssveit.

Þau sem eru ekki á Facebook geta tilkynnt þátttöku með því að senda póst á alka@alka.is.

Kveðja,

stjórn ÁLKA

Engin ummæli enn
Leit