Eins og kunnugt er hefur Pedromyndafjölskyldan ákveðið að hætta rekstri verslunarinnar, eftir liðlega hálfrar aldar starfsemi. Fyrir utan margháttaða ljósmyndunartengda þjónustu við almenning gegnum tíðina þá hafa bæði atvinnu- og áhugaljósmyndarar átt þarna hauka í horni. Pedromyndir hafa ekki bara selt búnað til ljósmyndunar heldur hefur fólk getað fengið ráðleggingar og tilsögn um allt mögulegt og ómögulegt - og það eru ansi margir hér norðan heiða sem hafa orðið ljósmyndarar beinlínis fyrir tilstilli Pedromynda. Ekki má gleyma því að Þórhallur var einn af frumkvöðlum ÁLKA og sat í stjórn félagsins um langt árabil.
Síðastliðinn föstudag afhenti Hafdís formaður ÁLKA þeim hjónum Þórhalli og Ingu blómvönd, sem örlítinn þakklætisvott fyrir allt það sem þau og fjölskyldan öll hafa gert í þágu ljósmyndunar og ljósmyndara, hér á Akureyri og víðar.